145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

631. mál
[12:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta snýr að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða og ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi unnið vinnu sína vel. Ég veit að hún hefur gert það og vildi bara vekja athygli á einu í tengslum við þetta, sem ég ætla ekki að koma með tillögu um núna en vil vekja athygli á. Ég held að það sé kominn tími til að við setjum gólf þegar kemur að fjárfestingum lífeyrissjóða í útlöndum, þ.e. hvetja þá eða skylda til að fjárfesta meira þar af augljósum ástæðum. Allir Íslendingar eru með allt sitt hér á landi og það er skynsamlegt að hafa sparnaðinn á fleiri stöðum. Sömuleiðis þegar við höfum áhyggjur af of mikilli styrkingu krónunnar er alveg sérstök ástæða til að lífeyrissjóðirnir okkar fjárfesti sérstaklega í útlöndum. Það er eitt af því sem nýttist okkur mjög vel þegar við urðum fyrir miklu áfalli haustið 2008. Við ættum að skoða það sérstaklega, eða næsta þing, að setja gólf á þessar fjárfestingarheimildir.