145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Margt hefur áunnist á þeim stutta tíma sem ég hef starfað á Alþingi. Ég vil ekki endilega tala um sigra og töp heldur tína upp það sem helst kemur upp í hugann.

Í gær samþykktum við stórt skref í afnámi fjármagnshafta og ríkissjóður er að rétta úr kútnum eftir hið margfræga hrun. Við bárum gæfu til að breyta hafnalögum til fyrra horfs þannig að hafin er löngu tímabær endurnýjun á hafnarmannvirkjum í fiskihöfnum á landsbyggðinni sem víðast hvar voru orðin stórhættuleg. Við höfum gert átak í lagningu ljósleiðara til að bæta nettengingu á landsbyggðinni og verið er að klára tengingar á um þúsund stöðum á landsbyggðinni. Stoltastur er ég þó af því að hafa tekið þátt í að lækka skuldir heimilanna sem eru komnar langt undir það meðaltal sem gerist í nágrannalöndunum. Því miður tókst ekki að jafna lífeyrisréttindi í þessu skrefi en vonandi tekst það fyrir áramót.

Að öllum líkindum þurfum við landsbyggðarfólk að játa okkur sigruð með Reykjavíkurflugvöll, að hann fari úr Vatnsmýrinni. Fátt er þó svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott. Með því að byggja upp innanlandsflugið í Keflavík skapast tækifæri til að auðvelda ferðamönnum að komast beint út á land eins og tíðkast víðast hvar annars staðar, t.d. í Noregi. Ef ferðamaður sem flýgur til Keflavíkur ætlar að fara til Akureyrar með flugi er það talsvert flókið fyrir hann að komast milli flugvalla því að engar beinar samgöngur eru þar á milli. Keflavíkurflugvöllur er þar að auki ekki tengdur við almenningssamgöngukerfi þannig að hægt sé að hoppa upp í rútu og fara á Selfoss, svo eitthvað sé nefnt. Almenningsvagnar fá hvorki að stoppa við aðalinngang Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar né við aðalinngang BSÍ. Ferðamenn eru nánast neyddir til að verða strandaglópar í henni Reykjavík. Ekki er skrýtið þótt borgaryfirvöld vilji flugvöllinn burt úr Reykjavík til að tryggja enn frekar að ferðamenn tolli í höfuðborginni.

Mörg brýn verkefni bíða nýs þings og óska ég þeim sem hér koma til með að starfa á næsta kjörtímabili alls hins besta um leið og ég þakka gott starf hér, sérstaklega nefndastarfið. Því miður sér hinn almenni borgari ekki hvaða vinna fer þar fram. Ég verð að viðurkenna að þó að margt skrýtið fari fram í þessum þingsal og ekki alltaf mjög sannfærandi fer mikil vinna fram á nefndafundum þingsins og er það til fyrirmyndar.

Ég þakka ykkur, kæru þingmenn, samstarfið.


Efnisorð er vísa í ræðuna