145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfaldast að svara síðustu spurningu hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Fólk er skynsamt. Fólk tekur skynsamlega upplýsta ákvörðun.

Varðandi flokkinn góða, Sjálfstæðisflokkinn — sem hv. þingmaður er velkominn í, hann er mikið íhald á flestum sviðum hef ég tekið eftir, en það er nú önnur saga — ég tel að þetta geti ekki á nokkurn hátt samrýmst nokkurri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og í rauninni ekki nokkurs flokks nema eins afturhaldsflokks í landinu sem heitir Framsóknarflokkur. Það er nefnilega ósköp einfaldlega þannig að í umræðunni í nefndinni var ómögulegt að koma að tveimur grundvallaratriðum í fjármálafræði, sem eru ávöxtunarkrafa og núvirði, hver er raunávöxtun lána eftir formi og/eða núvirðingu lána. Það eru komin einhver ný vísindi í fjármálafræði sem ég kalla summufræði þar sem summa lánsins er lögð saman þannig að augljóslega er 25 ára lán hagstæðara en 40 ára lán. En menn gera ekki tilraun til þess að mæla grundvallaratriði sem heitir núvirðing eða ávöxtun.

Þannig að það varð á tímabili engin skynsamleg umræða. Ég vísa bara enn og aftur til nefndarálits míns. Ég tel að það sé grundvallaratriði í lánaviðskiptum að fólk fái að taka sína upplýstu ákvörðun og njóti skattalegs hagræðis eftir því sem skynsemin býður því, það njóti jafnræðis. Og jafnvel ef fólk tekur lán hjá Færeyjabanka í dönskum krónum komi það þessari samkundu hér, þessum söfnuði, bara ekkert við. Ef viðkomandi vill taka lán í dönskum krónum í Færeyjabanka þá er það bara allt í lagi vegna þess að það er frjálst flæði fjármagns og líka frjálst flæði í lánaviðskiptum.

Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu með þessum orðum að sinni.