145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka aftur fyrir andsvarið. Eins og tölur, greinargerðir og ýmislegt annað sýnir fram á er mun dýrara að halda heimili einn en að vera í sambúð með öðrum. Jafnframt sýna ýmis gögn okkur að þeir sem búa með öðrum eru oft með samanlagðar hærri tekjur, því að oft er annar aðilinn með mun hærri tekjur úr öðrum sjóðum, en einstaklingur sem er einn og þarf að reiða sig á eigin framfærslu. Okkur fannst mikilvægt skref að koma á móts við þá sem verst eru staddir í kerfinu og hækka heimilisuppbót þeirra, það væru mikilvæg fyrstu skref. Síðan er mikilvægt að halda áfram að gefa í þennan málaflokk, eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert á þessu kjörtímabili, og það ætlum við okkur að gera ef við fáum umboð til þess áfram.