145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Óli Björn Kárason flutti hér innblásna ræðu um gleði sína yfir þeim stórkostlegu breytingum sem verið er að gera á almannatryggingakerfinu. Nú ætla ég að upplýsa hv. þingmann um það að ég er nýkominn frá því að heimsækja dvalargesti í Seljahlíð. Þar hitti ég konu, 80 ára gamla, sem gjörþekkir kerfið út og inn því að hún hafði unnið í því, hún hafði þess vegna reiknað út hvaða breytingar þetta hefði í för með sér fyrir hana. Hún gerði það á grundvelli frumvarpsins eins og það kom upphaflega inn. Jú, fyrir hana skipti það 500 kr. á mánuði. Svo kemur hv. þingmaður og talar um það hversu gríðarlega árangursrík þessi kerfisbreyting sé. Herra trúr. Trúir hv. þingmaður sjálfum sér þegar hann fer með þessa ræðu sína?

Í öðru lagi kynnti hv. þingmaður okkur fyrir viðhorfum Skagfirðinga til þess að lifa með reisn. Hann sagði að sú breyting sem hann væri að berjast hér fyrir og tala sig hásan yfir væri til þess að fólk gæti lifað með reisn. Telur hv. þingmaður þá að kerfi sem er þannig að þeir sem verst eru settir, eiga stundum ekki fyrir lyfjum, verða að neita sér um lyf, líka eftir þessa breytingar og aðrar sem hafa verið gerðar hér á ýmsum lögum, sé það, herra forseti, sem menn í Skagafirði kalla að lifa með reisn? Nei, ég þekki Skagfirðinga og þeir hafa allt önnur viðhorf til lífsins en þau sem birtast hér hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni.

Ég verð að spyrja hv. þingmann: Er hann tala í fullri alvöru þegar hann ber sér á brjóst yfir þessum gríðarlegu afrekum ríkisstjórnarinnar sem því miður höggva af því sem Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur hefur líka talað um, að gera kerfið atvinnuhvetjandi? Hann féllst á það hér (Forseti hringir.) varðandi einn annan bótaflokk að það sem menn væru að gera letti menn til atvinnuþátttöku. Hér stendur allt á horni hvers annars. (Gripið fram í.) Víst. (ÓBK: Þú misskilur þetta allt saman.) Nei, nei.