145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:25]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður átti erfitt með að skilja hugsunina í þessu frumvarpi og var illt í réttlætiskenndinni. Ég hef verulegar áhyggjur ef fulltrúum Pírata, ef þetta er svona almennt hjá Pírötum, verður illt í réttlætiskenndinni með þessu frumvarpi og eigi erfitt með að skilja það. Þetta frumvarp er nefnilega nákvæmlega hugsað eins og málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur verið í flestum málum, að gæta hagsmuna þeirra verst settu. Það hefur aldrei neitt annað staðið til. Menn verða að skilja hvað felst í almannatryggingum. Almannatryggingar. Það er verið að tryggja lágmarksframfærslu. Af hverju verður hv. þingmaður þá svo undrandi yfir því að miðað skuli við framfærsluviðmið? Við hvað eigum við að miða þá? Og ef þetta eru almannatryggingar, þetta snýst um framfærslu, af hverju skilur hv. þingmaður þá ekki að það sé eðlilegra — úr því að þingmaðurinn skildi jú að reksturinn væri ódýrari hjá sambúðarfólki, og þetta snýst allt um framfærslu og lágmarksframfærslu — að einhver skerðing sé þegar fólk er í sambúð? Þetta getur ekki verið einfaldara. Ég skil ekki af hverju hér eru ekki allir bara hoppandi af fögnuði yfir þessu. Nei, þá er það orðið eitthvert ójafnræði af því að allir fá þetta ekki. Er þá þingmaðurinn að ætlast til að hér eigi almannatryggingar að vera borgaralaun? Hvað á þingmaðurinn við?