145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

virðisaukaskattur.

8. mál
[10:43]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar með frávísunartillögu á þskj. 1812, tillögu um að 8. máli verði vísað til ríkisstjórnar, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Málið snýr að virðisaukaskattsumhverfi íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélaga.

Flutningsmenn á þessu máli þegar það er nú lagt fram, það hefur verið lagt fram þrisvar sinnum, eru eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.

Málið var fyrst lagt fram á 143. löggjafarþingi sem þingsályktunartillaga um endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar, 487. mál. Síðan var málið lagt fram að nýju sem lagafrumvarp á 144. löggjafarþingi, 411. mál, og svo nú á þessu þingi sem er að ljúka.

Ávallt hefur gefist tækifæri til að mæla fyrir málinu og í þessi skipti hefur það fengið fjölmargar umsagnir frá sveitarfélögum, íþróttafélögum, ungmennafélögum, sambandsaðilum á vettvangi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga og hinum ýmsu samtökum atvinnulífs og félagasamtaka.

Í þetta skipti fjallaði hv. efnahags- og viðskiptanefnd um málið og fékk á sinn fund eftirtalda aðila: Líneyju Rut Halldórsdóttur frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Björn Inga Victorsson og Geir Þorsteinsson frá Knattspyrnusambandi Íslands, Úlf H. Hróbjartsson frá Siglingasambandi Íslands, Bjarna Lárusson og Óskar H. Albertsson frá ríkisskattstjóra, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins og Mörtu G. Blöndal frá Viðskiptaráði Íslands. Umsagnir um málið á þessu þingi bárust frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Knattspyrnusambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.

Frumvarpið er tvíþætt og skiptist í tvær lagagreinar ásamt gildistökuákvæði 3. gr. Með frumvarpinu er annars vegar lagt til, og vísast til 1. gr., að þjónusta og vörusala íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi þeirra verði undanþegin virðisaukaskatti. Er hér verið að bregðast við þeirri stöðu sem sjálfboðaliðar og sjálfboðaliðastarf er í gagnvart skilum á virðisaukaskatti þar sem hluti hreyfingarinnar fellur nú þegar, samkvæmt lögum, undir undanþáguákvæðið en íþróttafélög innheimta t.d. engan útskatt af sölu sem lýtur að íþróttastarfsemi og fá þá ekki dreginn frá innskatt vegna kaupa á aðföngum til starfseminnar. Ábyrgðin er í öllu falli mikil gagnvart því að skila sköttum og gjöldum og því mikilvægt að skýra frekar þessa stöðu.

Tilgangur frumvarpsins er þannig að efla og styðja við sjálfboðaliðastarf í þessari starfsemi sem hún að meginstofni hvílir á og er, eins og við þekkjum, algjör grunnur að þessu starfi. Einnig er hér lagt til að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna tilgreinds kostnaðar við íþróttamannvirki og er hér vísað í árið 2016 en þar sem þó nokkur tími er frá því að málið var lagt fram er þetta ár undir. Í ljósi þess hvaða afgreiðslu hér er mælt fyrir er það ekki aðalatriði málsins. Ég vísa til 2. gr. frumvarpsins um að stuðla að uppbyggingu og viðhaldi íþróttamannvirkja en blessunarlega hefur orðið mikil fjölgun iðkenda og samhliða uppsöfnuð þörf fyrir slíka uppbyggingu og ekkert síður viðhald, ekki einvörðungu til að sinna iðkun heldur ekkert síður til að rækta félagslega þætti þessara íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélaga.

Markmið frumvarpsins er að styðja við starfsemi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga, einkum sjálfboðaliðastarf og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Mál þetta styður og er í anda stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar þar sem segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála og samþættingu leiks og náms eftir því sem kostur er. Stuðla ber að því að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem um ræðir íþróttir, listnám, listsköpun eða félagsstarf. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnagildi.

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega í anda stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar.

Síðustu ár hefur svo verið unnið að endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skipaði stýrihóp í því skyni og hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggur til að þessar tillögur verði teknar til skoðunar hjá stýrihópnum sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skipaði ásamt öðrum atriðum er verið hafa til umræðu hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd að undanförnu, t.d. hvað varðar virðisaukaskatt af bókum, tónlist og starfsemi efnisveitna.

Að þessu sögðu um mikilvægi íþróttahreyfingarinnar, starfsemi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga, stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar og víðtæka umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar um fjölmörg atriði er varða virðisaukaskatt og þann stýrihóp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem ég vísaði til og vinnur að heildarendurskoðun á virðisaukaskattsumhverfinu er við hæfi, eins og nefndin leggur til, að málinu verði vísað til hæstv. ríkisstjórnar. Þakka ég nefndarmönnum mikla samstöðu um þá afgreiðslu.

Hv. þm. Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu. Eftirtaldir hv. þingmenn rituðu undir álitið sem ég mæli hér fyrir og afgreiðslu málsins á Alþingi 12. október 2016: Frosti Sigurjónsson, formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar, Willum Þór Þórsson, Brynhildur Pétursdóttir, Sigríður Á. Andersen, Katrín Jakobsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sem ritar undir það með vísan til 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.