146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[16:04]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um frumvarp um kjararáð. Við erum hér að breyta starfsaðferðum ráðsins og hnykkja á því hvernig ákvarðanir eru teknar þar.

Markmiðið er tvíþætt; annars vegar að fjölga þeim aftur sem þiggja laun samkvæmt samningum á hefðbundinn hátt. Nú heyra 580 manns undir kjararáð. Það verða um 150 núna eftir þessar breytingar ef þær nást í gegn, því að hitt markmiðið er að þeir sem ekki geta samið um laun á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna hafi meiri aðkomu að eigin málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra en nú er. Markmiðið er því tvíþætt. Auðvitað er það líka markmið að stökkin séu ekki svona stór þegar kjararáð tekur sínar ákvarðanir, sem hefur áhrif á störf okkar þingmanna. (Forseti hringir.) Eins og við þekkjum núna á síðustu mánuðum (Forseti hringir.) hefur það rýrt traust á störf okkar. Við þurfum að passa að svo verði ekki áfram.