146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

útlendingar.

29. mál
[20:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Hér er verið að framlengja tiltekið ákvæði og samkvæmt tillögunni eins og við fengum hana í hendur til að byrja með var gert ráð fyrir að um væri að ræða breytingu á lagaumhverfinu til hálfs árs. Ég þakka sérstaklega fyrir að nefndin var einhuga um að þetta yrði einungis breyting til þriggja mánaða þar sem fyrir liggur að hér þarf að skýra ákveðna óvissuþætti sem eru til skoðunar enn frekar að því er varðar 35. gr. nýrra útlendingalaga sem ganga í gildi núna 1. janúar. Þau voru samþykkt í þinginu með öllum greiddum atkvæðum og bæta verulega lagaumhverfi þessa mikilvæga en um leið viðkvæma málaflokks.

Ég bendi sérstaklega á að sá fyrirvari sem ég geri við nefndarálitið og við málið varðar sérstaklega vandaða málsmeðferð og einstaklingsbundna sem er áréttað í nefndarálitinu að eigi að vera fyrir hendi. Mér finnst afar mikilvægt að við gætum að því að ganga aldrei þá leið að meðferð mála af þessu tagi fari eftir einhvers konar grófum flokkunum, heldur sé alltaf um það að ræða að allir umsækjendur um alþjóðlega vernd fái einstaklingsbundna og vandaða málsmeðferð.

Ég geri ráð fyrir að þingflokkur VG sitji hjá við málið í heild þegar það kemur til afgreiðslu. Til að flýta fyrir þingstörfum og gera þau lipur og leikandi lít ég á þetta sem framvirka atkvæðaskýringu.