146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu, frummælanda fyrir að hefja hana og hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Jafnframt vil ég nota tækifærið og óska honum góðs gengis í starfi. Ég skal segja það að ég var mjög sátt við að heyra þau svör sem ráðherrann kom með varðandi húsnæðismálin. Í raun og veru mun sáttari en þegar ég las stjórnarsáttmálann þar sem ég gat ekki fundið, þrátt fyrir hjálp tölvunnar, orðið húsnæði.

Hér heyrum við hins vegar að ráðherrann hefur í hyggju að leggja áfram áherslu á húsnæðismálin og gerir sér fulla grein fyrir því hversu mikilvæg þau eru heimilunum í landinu.

Ég skal viðurkenna að í ljósi þess að ég gat ekki séð neina stefnu í húsnæðismálum í stjórnarsáttmálanum hafði ég fyrir því að kíkja á stefnu stjórnarflokkanna í húsnæðismálum fyrir kosningar og létti eilítið við að sjá að menn höfðu ályktað um lausnir og tillögur varðandi þau. Í tilfelli Viðreisnar var lögð sérstaklega mikil áhersla á að auka framboð lóða þar sem menn gerðu sér ágætlega grein fyrir því að við fáumst við skort á framboði. Við sjáum að þrátt fyrir aukinn kaupmátt fólks, hærri laun og lækkaða vexti, hefur jafnvel kaupsamningum fækkað eða staðið í stað. Fólk hefur því ekki átt möguleika á að kaupa húsnæði þótt það hafi viljað.

Við sjáum líka bæði þegar maður kíkir á ályktanir Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar að lögð er áhersla á einföldun byggingarreglugerðarinnar og umhverfi hennar. Ég held að það sé eitthvað sem er einkar mikilvægt, þótt það heyri að vísu ekki undir hæstv. ráðherra, að áfram sé verið að beita sér fyrir því að einfalda reglugerðarumhverfið en líka lögin, skipulagslögin og mannvirkjalögin. Ég vona svo sannarlega að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hugi að þeim málum.

Ég vil líka taka sérstaklega fram að ég er mjög fegin að heyra að ætlunin er að standa við loforð fyrri ríkisstjórnar (Forseti hringir.) um uppbyggingu á almenna íbúðakerfinu. Ég vona að ráðherrann muni taka þann slag sem hugsanlega kann að verða nauðsynlegur, um að tryggja enn frekari fjárveitingar inn í það verkefni ef þess þarf.