146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða annað af forgangsmálum okkar Framsóknarmanna á þessum þingvetri en það er heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.

Markmið tillögunnar er að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun og hún verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Þar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt.

Við gerð áætlunar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri sé í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Heilbrigðisáætlunin skuli vera lögð fyrir Alþingi í desember 2017.

Í síðustu kosningabaráttu töluðu allir eða flestallir flokkar um að heilbrigðismálin ættu að vera efst á forgangslista stjórnmálanna eftir kosningar. Nú sjáum við þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar og ef litið er á þingmálaskrá hæstv. heilbrigðisráðherra sést engin heilbrigðisáætlun á þeim lista. Það er einstaklega undarlegt þar sem hv. þingmenn Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili gagnrýndu þáverandi stjórnarflokka fyrir stefnuleysi í málaflokknum. Það er einnig einstaklega undarlegt því að undanfarin mörg ár hefur vantað stefnumótun í þennan málaflokk. Það hefur m.a. landlæknir fjallað um í fréttum og annars staðar. Einnig kom það fram í þingskjali sem ég lagði fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili að stefnumótun vantaði í málaflokkinn en unnið væri að drögum. Þau drög komu aldrei fyrir Alþingi.

Ég vona að þingmenn í öllum stjórnmálaflokkum leggi okkur Framsóknarmönnum lið (Forseti hringir.) við að koma þessu mikilvæga máli í gegnum Alþingi.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna