146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð með stefnunni kemur fram að ef við myndum leiðrétta útkomu ríkissjóðs fyrir hagsveiflunni þá væri reksturinn í járnum. Þess vegna væri óvarlegt að stofna til varanlegra útgjalda á grundvelli þess afgangs sem hagsveiflan er að skila okkur. Eitt af grunngildunum undir þessari stefnu samkvæmt lögum er varfærni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það samræmist því grunngildi og þeirri stöðu sem lýst er í greinargerð með stefnunni að stofna til varanlegra útgjalda vegna heilbrigðismála, vegna menntamála og vegna öldrunarmála, svo ég nefni eitthvað af því sem talað er um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Er þessi klausa, um stöðuna ef leiðrétt er fyrir hagsveiflunni, skilaboð um að ekki verið farið í varanlega útgjaldaaukningu í velferðarmálum?