146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[14:53]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Björt framtíð hefur talað fyrir mannréttindum og friði á alþjóðavettvangi og að Íslendingar verði málsvarar mannréttinda, jafnréttis og friðar á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland verði öðrum til eftirbreytni með róttækni sinni í þessum málum.

Í gær bárust fréttir af íslenskum ríkisborgara sem fæddur er í Íran. Hann var á leið til Bandaríkjanna til að keppa á taekwondo-móti fyrir hönd Íslands. Honum var synjað um leyfi til að fara til Bandaríkjanna og vísað út úr flugvél á Keflavíkurflugvelli vegna tilskipana Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að banna fólki sem fætt er í tilteknum ríkjum að koma til Bandaríkjanna. Ég tel hann eins og mig vera fullgildan Íslending og hafa sama rétt til verndar og frelsis og allir Íslendingar.

Undanfarið hafa svo verið sagðar fréttir af því að samflokksmenn hæstv. utanríkisráðherra hafa lýst efasemdum um breytingar á Dyflinnarreglugerðinni og að hælisleitendum sem hyggjast misnota velferðarkerfið verði að sýna hörku. Ég veit svo sem ekki hvaðan þær hugmyndir eru sprottnar að hælisleitendur, sem leita mannúðar, flýi heimaland sitt til að misnota velferðarkerfi í öðrum ríkjum. Það væri gott að fá staðfestingu á því að hæstv. utanríkisráðherra taki ekki undir slíkt tal.

Ég vil líka minna hæstv. ráðherra á, af því að ég veit að hann er víðsýnn og réttlátur, að hann á bandamenn í Bjartri framtíð þegar kemur að því að auðga íslenskt samfélag með því að taka vel á móti innflytjendum og að við munum leggja okkur fram um það í þessu ríkisstjórnarsamstarfi að berjast fyrir því að auðvelda fólki að setjast að á Íslandi. Til þess þarf þó fleiri hendur og ég treysti því að ráðherrann nýti sínar til góðra verka. Þar á meðal að styðja eigin samflokksmenn til góðra verka og koma í veg fyrir þróun hérlendis eins og við horfum upp á í Bandaríkjunum.