146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[15:11]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir þátttöku í þessari sérstöku umræðu. Hún hefði átt að vera miklu lengri þar sem það er mjög margt sem við þurfum að ræða hér, við þurfum að ræða um hvernig Ísland skuli bregðast við.

Mig langar sérstaklega að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni. Við höfnum því sem er að gerast í Bandaríkjunum. Við höfnum þeirri skerðingu á mannréttindum og mannvirðingu sem á sér stað í Bandaríkjunum eins og stendur undir handleiðslu Donalds Trumps.

Við þurfum að nota rétt orð þegar þau eiga við. Hæstv. utanríkisráðherra vill ekki nota gífuryrði. En það er mikilvægt að við notum orð og notum þau rétt og þorum að nota orðin þegar þau eiga við. Ég tel það lykilatriði í þessari umræðu að við förum að nota þau orð og það orð sem ég held að lýsi stjórnarháttum Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, sem best. Donald Trump er fasisti. Það er bara þannig. Það er rétta orðið til að lýsa nokkurra daga setu hans sem Bandaríkjaforseta. Það er rétta orðið til að lýsa þeim atburðum sem átt hafa sér stað innan Bandaríkjanna. Það er rétta orðið til að lýsa þeirri vanvirðingu við mannréttindi, kvenréttindi, alþjóðaskuldbindingar og fólk og önnur lönd.

Notum rétt orð þegar þau eiga við: Donald Trump er fasisti.