146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

4. mál
[19:44]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Aftur bara stutt. Mig langar til þess að fagna þessu góða frumvarpi. Sem nýr þingmaður í velferðarnefnd hlakka ég ótrúlega mikið til að viða að mér upplýsingum um þetta mál af því að við verðum að skoða það. Ég tek undir með hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um að það tengist því sem við vorum að ræða áðan varðandi heilbrigðisáætlun.

Þegar kemur að svo stefnumótandi ákvörðunum eins og þarna eru finnst mér að þær eigi að bera undir þingið. Í rauninni mundi ég ganga lengra og segja að við ættum að bera þetta mál undir þjóðina af því að við þurfum að taka ákvörðun um það í sameiningu sem þjóðfélag hvert við viljum stefna. Það sem ég var að reyna að segja áðan og átti erfitt með af því að ég var að reyna að þýða enskan málshátt, er að ef við vitum ekki í hvaða höfn við siglum þá er engin vindátt hagstæð. Það er mikilvægt að við ákveðum saman hvert við viljum stefna í þessum málum.

Það eru mörg mál sem koma inn núna sem tengjast ofboðslega mikið, eins og stefnan varðandi heilbrigðisáætlun til framtíðar, þetta mál og einnig sérstakar umræður um málefni öryrkja, sem verður mjög góð og áhugaverð umræða. Og Klíníkin verður rædd í fyrramálið í velferðarnefnd. Þá fáum við gesti og ræðum það mál. Það er mjög flott að við tökum svona umræðu og tökum ákvarðanir fyrir framtíðina.

Það er mjög varasamt að færa gróðasjónarmið inn í heilbrigðiskerfið. Það er í eðli viðskipta þar sem markmiðið er hagnaður að vilja bæta við sig viðskiptavinum. Það er eiginlega þvert á það sem við stefnum að í heilbrigðiskerfinu, við viljum ekki fjölga þar. Það skiptir gríðarlega miklu máli í heilbrigðisáætlun að við tökum forvarnir fyrir. Við getum t.d. alveg sparað í heilbrigðiskerfinu. Það er bara spurning um sameiginlega ákvörðun um hvers konar samfélagi við viljum búa í. Viljum við minnka álag og stress með því að skapa fjárhagslegt öryggi og afnema óvissu um framtíðina? Þessir þættir hafa bein áhrif á kostnað í heilbrigðiskerfinu. Viljum við skapa mannsæmandi líf fyrir öryrkja? Það hefur bein áhrif á heilbrigðiskerfið.

Eins og staðan er í dag erum við ofboðslega mikið í því að færa til kostnað úr einu kerfi yfir í annað. Ég held að það sé út af því að það er skortur á heildarsýn á því hvert við viljum stefna sem þjóðfélag. Ég skora á þingmenn að taka þetta einu skrefi lengra og spyrja þjóðina fyrst. Tökum þessa ákvörðun saman.