146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í dag birtist á netmiðlum frétt um að húsnæðisverð sé að hækka og komi til með að hækka um allt að 30% á næstu þremur árum samkvæmt greiningardeild Arion banka. Það er líka talað um að það þurfi í kringum 8–10 þús. nýjar íbúðir fram til ársloka 2019 til þess að anna eftirspurn. Því verður ekki hjá því komist að vekja athygli á því enn og aftur að það er ekkert í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem tekur á húsnæðismálum. Það verður væntanlega ekki staðið við það sem er samkvæmt samningum við verkalýðshreyfinguna. Þá kemur til með að vanta í kringum 300 íbúðir á hverju ári miðað við þau áform sem uppi eru núna og þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar miðað við ákvarðanir síðustu ríkisstjórnar.

Það er líka áhyggjuefni að staða ungs fólks eins og við þekkjum og höfum rætt oft í þingsal er ekki góð þegar kemur að fyrstu kaupum eða yfir höfuð bara til að kaupa sér húsnæði eða vera á leigumarkaði sem við vitum að er löngu sprunginn, m.a. vegna þess að það er verið að leigja það til hinnar ört vaxandi atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar.

Stærðirnar sem um að ræða í húsnæðismálum eru langt umfram hagstærðir á borð við kaupmátt ráðstöfunartekna sem er auðvitað verulega mikið áhyggjuefni. Eins og hagfræðingurinn hjá greiningardeildinni segir er gert ráð fyrir 1–3 þús. færri íbúðum en þörf er á, en ekki 300, fyrirgefið, og verðhækkanirnar eru þetta miklar en eina ráðið sem hún hefur til handa ungu fólki er að spara. En getur ungt fólk sparað? Er það svo? Samkvæmt sérleið Sjálfstæðisflokksins tekur það tíu ár að spara fyrir útborgun. Er það raunhæfur möguleiki? Það held ég ekki.

Virðulegi forseti. Því miður hefur ekkert komið fram hjá nýrri ríkisstjórn (Forseti hringir.) um þessi mál. Ég vona svo sannarlega að þetta verði til þess að ýta við ríkisstjórninni og hér verði lögð fram raunhæf áætlun um það hvernig bregðast megi við þessum mikla vanda unga fólksins.


Efnisorð er vísa í ræðuna