146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

starfshópur um keðjuábyrgð.

69. mál
[16:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni enn og aftur og sérstaklega fyrir að taka vel í málið á efnislegum grunni. Það skiptir miklu máli hér á Alþingi að njóta stuðnings við þingmannamál strax við fyrstu umr. Þó að allur þingflokkur Vinstri grænna leggi það fram er þetta augljóslega þverpólitískt mál. Þetta snýst um réttarbót fyrir íslenskt samfélag í heild.

Eins og hv. þingmaður kom inn á finnum við og verðum þess áskynja í sífellt ríkari mæli að við sjáum merki um mansal, við sjáum merki um félagsleg undirboð í ríkari mæli o.s.frv. Það er óviðunandi annað en að löggjafinn taki á málinu með einhverjum hætti. Hér er auðvitað ekki skorið úr um það nákvæmlega með hvaða hætti það á að gera heldur miklu frekar að það þurfi að kalla þessa aðila saman að borðinu og velta því fyrir sér a.m.k. hvort ekki sé rétt að fara löggjafarleiðina í þessum efnum. Eins og kom fram í framsögu minni áðan er það gert með mismunandi hætti í löndunum í kringum okkur. Það er til í dæminu að þetta sé gert einungis undir flaggi kjarasamninga eða þá í samningum eða samþykktum einstaka fyrirtækja. En svo er einnig möguleiki á að fara þessa löggjafarleið sem er þá meira dekkandi fyrir vinnumarkaðinn í heild. Það er sá tónn sem er sleginn hér. Það er það sem lagt er til í þessari tillögu.

Ég vonast til að þessi góðu og jákvæðu orð sem falla hér í þessu samtali okkar hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur séu fyrirboði um að málið verði a.m.k. ekki lokað inni í einhverjum hefðbundnum átökum milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur skoðum við þetta öll með opnum augum og með málefnalegt inntak þingmálsins í forgrunni.