146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[13:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég sat í forsetastóli áðan og klæjaði í fingurna að taka þátt í umræðu um málið og var ekki alveg viss hvort hún myndi klárast fyrir matarhlé. Sem betur fer gerði hún það ekki svo ég get tekið þátt.

Mér fundust mjög áhugavert þau sjónarmið sem reifuð voru við 1. umr., sem er vanalega ekki mjög beysin en var mjög góð núna. Þá á ég við markmið um réttindi barnanna til samvista við foreldra, réttindi foreldra til samvista við börn. Svo er það jafnréttisvinkilinn, að réttur foreldra til að njóta samvista við börn sín sé jafn. Og svo er það vinnumarkaðsvinkillinn, réttindi foreldranna til að hafa jöfn tækifæri til vinnu og annars í lífinu þegar fólk eignast börn.

Svo eru leiðir að þessu. Þarna eru ólík markmið, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, frummælandi málsins talaði um. Þessi markmið geta togast á og stangast á að einhverju leyti. En það er ótrúlega oft þannig að þegar hægt er að skoða leiðirnar í upphafi er hægt að vinna sig í áttina að því að samþætta þær, ná öllum markmiðunum.

Ef eitthvert markmið vegur þyngst held ég að flestir þingmenn séu sammála því að það hljóti að vera réttindi barnsins til samvista við foreldra. Síðan koma hin réttindin. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því.

Þegar kemur að leiðunum að markmiðunum er mikið talað um upphæðir; gólf svo fólk hafi alla vega lágmarksframfærslu, og talað er um þök á það hvað megi fara umfram, og svo er talað um prósentur innan þess markmiðs. Og leiðin að markmiðinu er líka lengdin á tímabilinu og hvernig hægt er að skipta því á milli fólks.

Hv. þingmaður og ég ræddum um mögulegar leiðir að þessu í matsalnum áðan. Og kannski bara til að koma því inn í umræðuna varðandi það (Forseti hringir.) þegar kemur að skiptingunni, að skiptingin gæti verið einhvern veginn þannig að til þess að tryggja meiri réttindi barnsins til samvista við foreldra og jafnréttisvinklana báða tekur maður sinn hluta og svo lækkar greiðslan til manns hlutfallslega þannig að það þrýstir á að báðir foreldrar sinni sínum hlutverkum, réttindum og skyldum að jöfnu.