146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef miklar efasemdir um að skipa nefnd sem er fjölmenn og er með fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Ég vil heldur fá sérfræðinga til að draga saman allar upplýsingar og leggja þær síðan fram fyrir okkur og við getum síðan tekið til við það verkefni að ræða það og diskútera og takast á eins og við þurfum alveg örugglega að gera. Ég held að hitt sé vísasta leiðin til þess að þetta verði aldrei gert, vegna þess að ég held að þetta sé nauðsynlegt. Ég held að það sé algjörlega lífsnauðsynlegt fyrir þingmenn að við fáum þá kortlagningu, bæði hvað varðar eignir ríkisins í heild, hugsanlegt mat á því hvað kemur til greina að ríkið losi sig við, hvað er skynsamlegt og hvað er réttlátt í þeim efnum, en líka hvaða verkefni bíða okkar, gríðarlegu verkefni sem bíða okkar í innviðafjárfestingu í samgöngum, í heilbrigðismálum o.s.frv. Ég vara því við að við séum að pota okkur sjálfum í þessa vinnu á þessum tíma. Við eigum að taka við úttektinni, við upplýsingunum. Við skulum síðan fara að ræða með hvaða hætti það er gert.

Það kann hins vegar vel að vera að það sé bratt að ætlast til þess að slíkri vinnu sé lokið á þeim tíma sem hér er lagt til. En það er kannski skagfirska blóðið í mér sem veldur því að mér finnst nú betra, og við Íslendingar erum vanir því, að hafa tímann knappan. Það er einhvern veginn þannig að þegar tíminn er knappur þá vinnst okkur best.