146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[15:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Það er von mín að framsetning stefnunnar leiði til faglegrar umræðu. Í því sambandi má benda á að megintilgangur hennar er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi til lengri tíma og skapa þar með betri forsendur fyrir hagkvæmari nýtingu, mannafla, fjármagns og auðlinda.

Umræðan um fjármálastefnuna á fyrst og fremst að snúa að því hvernig henni er beitt sem hagstjórnartæki stjórnvalda samhliða peningamálastefnunni til að stuðla að jafnvægi í hagkerfinu að gefnum fyrirliggjandi efnahagshorfum. Faglega umræðan um fjármálastefnuna á ekki að snúast um hversu miklum fjármunum stjórnvöld ætla að verja til heilbrigðismála, menntamála o.s.frv., heldur kemur sú útfærsla fram í fjármálaáætlun. Í fjármálastefnunni er áherslan fyrst og fremst á meginstærðir opinberra fjármála, þ.e. afkomu og skuldamarkmið fyrir hið opinbera og opinbera aðila í heild sinni. Með bættri afkomu og auknu aðhaldi af hálfu hins opinbera er vegið að einhverju leyti á móti þeirri eftirspurn á þenslu sem nú ríkir og gerir það að verkum að Seðlabankinn getur haldið stýrivöxtum lægri en hann þyrfti að gera, sem aftur hefur jákvæð áhrif á heimili og fyrirtæki. Hversu hátt aðhaldsstigið á að vera er hins vegar alltaf umdeilanlegt.

Meginmarkmið stefnunnar er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi í hagkerfinu og stuðla að sjálfbærni og stöðugleika í opinberum fjármálum. Faglega umræðan á því að snúast um það hversu mikið aðhald, eða hversu mikinn afgang, hið opinbera á að veita við núverandi efnahagsástand. Er stefnan að veita nægilegt aðhald, of lítið eða of mikið? Sama á við um skuldaþróunina. Er verið að greiða skuldir hins opinbera of hratt niður eða of hægt?

Rétt er að geta þess að samkvæmt lögum um opinber fjármál skal fjármálaráð leggja mat á það hvort fjármálastefnan uppfylli bæði grunngildi laganna og fjármálareglur. Sú álitsgerð verður birt opinberlega og má ætla að hún gefi faglegu umræðunni aukna vigt.

Hv. þingmaður spyr einnig um hvernig ákveðið hafi verið að heildarútgjöld hins opinbera fari ekki fram úr 41,5% af vergri landsframleiðslu. Í stuttu máli má segja að þetta viðmið hafi verið fundið með hliðsjón af sögulegri þróun og einnig með hliðsjón af stöðunni á umfangi hins opinbera í dag. Frumgjöld hins opinbera, þ.e. heildargjöld að frádregnum vaxtagjöldum, hafa aðeins einu sinni farið upp fyrir þetta markmið á árunum 1980–2015 ef frá eru skilin árin eftir hrun. Meðaltal frumgjalda er á milli 38–39% á því tímabili. Með lækkandi skuldum lækka vaxtaútgjöld. Gangi áætlunin eftir verða þau um 1,5% af vergri landsframleiðslu í lok tímabilsins. Útlit er fyrir að heildarútgjöld verði á bilinu 41–41,5% fyrir árið 2017 og frumútgjöld um 38%. Svigrúm er því nokkurt í þessu viðmiði, eða um 1,5–2% miðað við áætlaða stöðu árið 2022.

Hv. þingmaður spyr hvort það væri til hagsbóta að hafa slíkan samanburð fjármálastefnu við rauntölur. Það er ljóst að samanburður af því tagi verður sýndur í framtíðinni. Það er í samræmi við eitt af grunngildum laga um opinber fjármál. Við erum ekki komin enn á þann stað að geta sýnt slíkan samanburð vegna þess hve stutt er síðan lögin komust í framkvæmd og engar tölur að bera saman við, en ég er sammála þingmanninum um að slíkur samanburður er afar mikilvægur.

Spurt er hver aðkoma smærri aðila skuli vera að fjárlagavinnunni. Lög um opinber fjármál fela í sér þá breytingu að skilgreining fjárheimilda er nú niður á málefnasvið og málefnaflokka í stað fjárlagaliða áður. Þessi breyting miðar að því að beita efnislegri umræðu um stefnu stjórnvalda og þingsins í mismunandi málaflokkum og um heildarframlög til þeirra í stað þess að umræðan snúist um einstakar stofnanir eða verkefni og þá oft til eins árs í senn.

Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni um að fundinn verði farvegur í fagráðuneytunum þar sem farið verður yfir ábendingar þessara smærri aðila.

Spurt er hvort eðlilegt sé að setja upp stefnuna bæði í krónum og hlutfalli. Ég hygg að það gæti verið villandi vegna þess að þá erum við farin að tala um krónur, hugsanlega verðbættar krónur í framtíðinni og menn gætu talið að verið væri að tala um þó nokkra útgjaldaaukningu þegar hún væri kannski ekki jafn mikil í raun. En ég átta mig alveg á því að menn skilja hlutföll misvel.

Loks nefndi hv. þingmaður hvort ekki ætti að gera grein fyrir sölu eigna sem áformuð væru á tímabilinu. Því er til að svara að engar sérstakar eignir eru áformaðar til sölu á þessu tímabili og verði um sölu að ræða þá verður haft (Forseti hringir.) um það víðtækt samráð við aðra flokka.