146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framsal íslenskra fanga.

73. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum kærlega fyrir svör hennar og öðrum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það er gott að heyra að ráðherrann telur að núverandi lagaumhverfi gefi henni nægar heimildir að hennar mati til að geta beitt sér í málum sem koma upp þar sem brotið er á mannréttindum íslenskra þegna og jafnvel líf þeirra í stórhættu.

Ég vil hins vegar benda á að í fyrirspurn sem var beint til þáverandi utanríkisráðherra kom fram að hafinn væri undirbúningur að samningi um þetta við sérstaklega Brasilíu. Hins vegar kemur fram í svari ráðherrans að hún telji, og vísar þá til hinna Norðurlandanna, að þar hafi ekki verið gerðir þess háttar samningar. Og það sé vegna þess að erfitt sé að sjá fyrir sér að slíkur samningur gæti í reynd verið tvíhliða.

Ég tel líka að í svari ráðherrans hafi komið fram ákveðin sýn og ákveðin áhersla á hvernig hún vill nálgast einstök mál og nefndi sérstaklega ungan aldur og aðstæður sem þyrfti að meta hverju sinni. Eins og kom fram í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur erum við ekki að tala bara um einstakt land heldur getur það verið fjöldinn allur af löndum þar sem aðstæður geta orðið með þeim hætti að viðkomandi einstaklingar eru einfaldlega í hræðilegum aðstæðum.

Ég vil því eindregið hvetja ráðherrann til að vinna áfram í þessum málum, um framsal íslenskra fanga erlendis til að afplána hér á Íslandi, að íhuga það að marka stefnu um hvernig hún sér fyrir sér að beita þessu lagaákvæði og ég tek jafnframt undir mikilvægi þess að gott (Forseti hringir.) samstarf sé milli utanríkisþjónustunnar og innanríkisráðuneytisins varðandi málefnið.