146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

um fundarstjórn.

[14:57]
Horfa

Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Forseti hefur móttekið skilaboð þingmanna og vill koma því á framfæri að forseti hefur óskað eftir tilnefningum í þingskapanefnd frá öllum þingflokkum þar sem farið verður yfir með hvaða hætti við viljum mögulega íhuga breytingar á þingsköpum. Ég hef þá reynslu af þingstörfunum að það sé töluverð íhaldssemi varðandi slíkar breytingar en geri mér þó vonir um, miðað við umræðuna hér, að nokkrir nýir þingmenn og jafnframt nokkrir eldri þingmenn hafi mikinn hug á og vilja til þess að breyta hlutum til hins betra. Draumurinn er auðvitað sá að þetta sé fjölskylduvænn vinnustaður þar sem allir geti mætt undirbúnir til leiks. Ég vona að við getum öll sameinast um það.

Til þess hugsanlega að ljúka þessu tekur til máls um fundarstjórn forseta hv. 3. þm. Reykv. n., Birgitta Jónsdóttir.