146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[15:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég skil hann sem svo að þegar hann segir að við séum á ystu nöf stjórnarskrárinnar telji hann að málum væri betur fyrir komið ef slíkt ákvæði um takmarkað framsal væri fyrir hendi í stjórnarskránni. Það er áhugavert að vita hvort hann hyggist beita sér fyrir því í þeirri vinnu sem er boðuð af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað varðar stjórnarskrána.

Enn fremur langar mig til að nefna að það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að viðbrögðin við hruninu og kreppunni voru auðvitað þau að stórauka eftirlit með fjármálamarkaðnum. Við höfum séð óteljandi tilskipanir koma inn þar sem er verið að skapa stífari ramma, setja auknar reglur og auka eftirlit. En það eru líka óteljandi gagnrýnisraddir sem benda á að meðan menningin og umhverfið breytist ekki innan fjármálafyrirtækjanna þjóni eftirlitið kannski takmörkuðum tilgangi. Telur hæstv. ráðherra að viðbrögð (Forseti hringir.) Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins þjóni tilgangi sínum eða hefur hann áhyggjur af því að það kunni allt að leita aftur í sama farið?