146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gildir náttúrlega með skipan í þessa nefnd og ráð eins og margar aðrar nefndir og ráð að í þau er skipað af mörgum mismunandi aðilum. En þar sem lögin ná bæði yfir ríki og sveitarfélög hefur verið lesið út úr þessum lögum að það megi ætlast til þess að þeir aðilar hafi samráð sín á milli til að tryggja að lögunum sé framfylgt. (BN: Allt samráð er bannað í landinu, þú veist það.) Við erum að hafa samráð akkúrat hér, hv. þingmaður, þannig að það hlýtur að vera einhvers konar samráð leyfilegt í landinu.

Að því er ég skil best róterar seta í þessum nefndum á ársbasís þannig að það hlýtur nú að vera hægt að sjá fyrir með einhverjum fyrirvara hvernig jafnréttissjónarmiðum yrði háttað í framtíðinni. Ég sé enga ástæðu til annars en tryggja að svo verði og ekki sé alltaf verið að skýla sér á bak við einhvers konar sjálfstæði dómstóla til að virða lögin í landinu, sem eru að gæta skuli að jöfnum hlut kvenna og karla.

Þegar talað er um fjölbreytni. Ég vil bara vísa í það að það hefur ekki með að gera vinnusögu, heldur meira svona hvers konar manneskja þú ert, atriði sem þú ræður ekki við sjálf.