146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

ívilnandi samningar vegna mengandi stóriðju.

[11:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra út í framkvæmd þess hluta stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem segir að ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju. Ég tek fram að ég er ánægð með þessa stefnu hæstv. ríkisstjórnar en það er framkvæmdin sem ég vil vita um.

Hæstv. ráðherra hefur fagnað því oft, skýrt og ákveðið, að nú sé þessum kafla í Íslandssögunni lokið. Þess vegna varð ég undrandi þegar ég fletti þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og fann engin áform um lagabreytingar þessu til stuðnings. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að lagabreytingar séu nauðsynlegar svo að yfirlýsingin og stefnan nái að verða að veruleika?

Ívilnanir til nýfjárfestinga eru veittar samkvæmt rammalöggjöf um ívilnanir frá árinu 2015. Þar eru talin upp ýmis skilyrði sem verkefni þarf að uppfylla til að geta notið ívilnana. Hvergi er vikið að skilgreiningu á mengandi stóriðju í lögunum. Hvernig á að framfylgja því að mengandi stóriðja fái ekki ívilnanir á grundvelli laga sem í gildi eru? Nær hugtakið yfir verkefni sem falla undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir sem Ísland er aðili að? Slík verkefni geta farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og fengið framkvæmda- og starfsleyfi á grundvelli íslenskra laga. Má skilja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar svo að hér megi setja af stað ný verkefni sem gætu kallast mengandi stóriðja en þau fái bara ekki fjárfestingarsamning með ívilnunum?