146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

ívilnandi samningar vegna mengandi stóriðju.

[11:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis spurningu hv. þingmanns. Mér finnst ofboðslega gaman hvað ég fæ mikið af spurningum í óundirbúnum fyrirspurnatímum, við ræðum kannski meira umhverfismál en verið hefur.

Varðandi mengandi stóriðju og hvað segir um hana í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er alveg rétt að við ætlum ekki að efna til nýrra fjárfestingarsamninga þar. Það er þannig, og ég skoðaði þetta vel þegar ég vildi koma þessu að og við í Bjartri framtíð, að hér hafa ekki risið mengandi stóriðjur á síðastliðnum árum eða áratugum án þess að fengnar hafi verið til þess sérstakar ívilnanir frá ríkinu. Það er eins og þetta sé eiginlega ekki gerlegt í huga fyrirtækjaeigenda án þess að það fáist sérstakur afsláttur af sköttum og gjöldum, sem ég tel að við eigum ekki að veita og við ætlum ekki að veita.

Hv. þingmaður spyr hvort lagabreyting sé nauðsynleg. Ég tel svo ekki vera eftir að við skoðuðum mjög vel með atvinnuvegaráðuneytinu nákvæmlega þennan rammasamning um nýfjárfestingar. Í honum koma vissulega ekki fram orðin mengandi stóriðja en það sem þó kemur þar fram og rímar mjög vel við áherslur okkar, þá grænu atvinnustefnu sem nú er tekin við, er að í rammalöggjöfinni er talað um náttúru- og umhverfisvernd. Við ætlum að draga þá þætti ofar og hafa þá ofar en hina. Sú þriggja manna nefnd sem er í ráðuneytinu hefur fengið þau tilmæli og veit að það er ekki í stefnu ríkisstjórnarinnar að veita mengandi stóriðju ívilnanir (Forseti hringir.) og hún ætlar ekki að gera það.