146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

ívilnandi samningar vegna mengandi stóriðju.

[11:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig ein ríkisstjórn getur sagt þetta skýrar en að setja það í stjórnarsáttmála sinn, þetta sérstaka ákvæði, að hún muni ekki veita ívilnanir til nýfjárfestinga í mengandi stóriðju. Það getur eiginlega ekki verið neitt skýrara en það. Svo getum við hv. þingmaður farið yfir rammalöggjöfina saman og fundið þar málsgreinar sem fjalla sérstaklega um umhverfis- og náttúruvernd og hvernig við getum alveg látið það ríma við þá rammalöggjöf sem nú er í gildi og stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar, sem er jú allrar ríkisstjórnarinnar, ekki sérstakra ráðherra. Þótt þeir eigi heima í atvinnuvegaráðuneytinu er það sami stjórnarsáttmáli sem á heima þar og í ráðuneyti mínu, umhverfisráðuneytinu.