146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[11:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á meðan stjórnarskrá Íslands leyfir ekki takmarkað framsal valdheimilda til erlendra stofnana er ekkert sem heitir einföld innleiðing. Þetta er alltaf gert með lögum þar sem er leitast við að uppfylla þær skuldbindingar sem við höfum að þjóðarétti gagnvart EES-samningnum. Það er alltaf pólitísk ákvörðun hvaða áherslur eru lagðar í svona frumvarpi. Þetta kemur frá ráðherra, sem ekki er hrein afgreiðslustofnun heldur pólitískur embættismaður sem leggur hér fram frumvarp þar sem tekin er pólitísk ákvörðun um að undanskilja almenningssamgöngur frá því sem var í fyrri frumvörpum. Mér þykir það undarlegt, verð ég að segja.

Svo vekur það nú ekki mikla tiltrú á frumvarpinu þegar maður rekur sig á hluti sem beinlínis virðast ganga gegn EES-samningnum, eins og í 5. gr. frumvarpsins þar sem segir að rekstraraðili skuli hafa staðfestu hér á landi, sem gengur gegn því að EES-samningurinn er eitt markaðssvæði. Ef maður skoðar Evrópureglugerð 1071/2009, heitir það að fyrirtæki skuli hafa staðfestu (Forseti hringir.) í aðildarríki sem svo verður enn skýrara í ensku útgáfu textans, þar sem segir, með leyfi forseta: „Establishment in a member state“. Í einhverju aðildarríki EES-samningsins. Af hverju er þetta orðið að „hér á landi“ sem ég myndi halda að Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemd við og myndi draga okkur fyrir EFTA-dómstólinn (Forseti hringir.) alveg eins og við það að innleiða þetta ekki.