146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[13:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir ræðu hennar og framsögumanni málsins, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur. Ég held að það sé vel þess virði að taka umræðu um þessi mál hér í þingsal, jafnvel þótt deila megi um hversu brýnt eða aðkallandi það er á grundvelli þess að við getum kannski ekki sagt að hætta sé á mikilli beitingu eða misbeitingu þessa ákvæðis eins og sakir standa.

En ég vildi spyrja hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur af þessu tilefni hvort hún hefði myndað sér skoðun á eða tekið afstöðu til tillagna sem m.a. varða þessi mál sem fram komu í frumvörpum sem voru kynnt af hálfu menntamálaráðuneytisins á síðasta ári. Þau voru afrakstur töluvert viðamikillar nefndarvinnu sem varðaði tjáningarfrelsismál í víðum skilningi. Í þeim frumvörpum sem kynnt voru á vef menntamálaráðuneytisins í haust, ef ég man rétt, september líklega, var m.a. gert ráð fyrir niðurfellingu þess ákvæðis sem hér um ræðir sérstaklega en einnig töluvert víðtækari breytingum sem vörðuðu ærumeiðingarkafla hegningarlaganna, að svo slepptum öðrum málefnum sem varða tjáningar- og upplýsingafrelsi.