146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:45]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og mér finnst þetta góðar vangaveltur. Ég velti svipuðum málum fyrir mér en ég var ekki búinn að sjá þetta samhengi. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á það. Ég velti fyrir mér hvort umræddur hv. fyrrverandi þingmaður hafi gert sér grein fyrir því að hann væri ekki að segja bara nei við fána Evrópusambandsins heldur líka við fána Evrópuráðsins sem á í raun og veru að vera „flag of Europe“, þ.e. þetta er fáni Evrópu. Þeir sem segjast vera Evrópusinnar en ekki Evrópusambandssinnar en setja svo rautt yfir þennan fána átta sig kannski ekki alveg á því hvað þeir eru að gera.

Hvort ég sé að feta í fótspor hans veit ég ekki. Pólitískt séð held ég að ég geri það ekki mjög gjarnan en maður á oft samleið með mönnum með ýmislegt, eins og að smána fána. Ég hef líka velt því fyrir mér þar sem segir í lögunum að það megi ekki smána fána Evrópuráðsins en Evrópusambandið notar sama fána, hvort maður brjóti lögin ef maður smánar fána Evrópusambandsins og setur í það samhengi að maður sé að meina að núna [Þingmaður tekur upp mynd af fána.] sé þetta fáni Evrópusambandsins, en núna [Þingmaður tekur aftur upp myndina af sama fána.] er þetta fáni Evrópuráðsins. Það er spurning hvernig lögin yrðu túlkuð í því samhengi. Ég veit ekki hvort við hv. þm. Andrés Ingi munum láta á það reyna meðan þessi lög eru enn þá í gildi með einhvers konar málaferlum gegn fyrrverandi þingmanni, en ætli ég mæli ekki gegn því.