146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Orð hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés vöktu hugljómun hjá mér eins og orð hv. þm. Pawels Bartoszeks og mig langaði til þess að tjá mig aðeins um það. Þá er það ákveðið orðalag sem mundi lýsa þessu vel, rétt eins og orð hv. þm. Pawels Bartoszeks fengu mig til að snúa dæminu við og spyrja: Ættum við þá ekki að banna fólki að móðga þjóðir með því að hrósa slæmum leiðtogum? Við ættum væntanlega að banna það að slæmum þjóðarleiðtogum væri hrósað því að það gæti móðgað þjóðina ef þeir eru það slæmir, alveg eins og það er bannað að móðga þjóðarleiðtoga núna. Þetta er dálítið skemmtilegur leikur.

En niðurstaðan sem ég fæ úr ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés er í raun og veru sú að þetta er lagagrein þar sem okkur er bannað að vera heiðarleg, okkur er bannað að vera hreinskilin. Hv. þingmaðurinn leiðréttir mig ef það er ónákvæmt orðað, eða hitti ég kannski naglann á höfuðið? Ég er ekki alveg viss. Það væri gaman að heyra álit hans á því.