146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er mikill uppljómunardagur í lífi hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Það er heiður að fá að taka þátt í því. Nú þarf ég að vanda orð mín. Ræður og umræður í sal Alþingis hafa ekki alltaf vakið upp umræðu af jafn heimspekilegum toga og í dag, það er vel.

Jú, að ákveðnu leyti má segja að hv. þingmaður hafi þarna hitt naglann á höfuðið. Nú get ég að sjálfsögðu bara talað fyrir mig, eins og allir sem tjá sig um það sem þeim finnst eðlilegt í samtölum og orðræðu manna á milli, því að það er algjörlega einstaklingsbundið, bundið smekk hvers einstaklings. Sjálfur reyni ég að haga mínu lífi þannig að heiðarleikinn ráði þar för. Það þýðir samt ekki alltaf að ég segi blákaldan sannleikann hvar sem er og hvenær sem er, því að þar koma líka inn félagslegar aðstæður, uppeldi mitt, það sem mér hefur verið kennt um hvað er rétt og rangt, tillitssemi o.s.frv. Í grunninn snýst þetta um hvort það sé leyfilegt að vera heiðarlegur varðandi skoðun sína, í þessu tilviki á erlendum þjóðhöfðingja. En eins og varðandi annað í samskiptum fólks er maður náttúrlega bundinn af hefðum og venjum samfélagsins og sínum eigin.

Ég vona að hv. þingmaður skilji hvað ég er að fara með þessu. En í grunninn hitti hv. þm. Björn Leví Gunnarsson þarna naglann á höfuðið.