146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þakka honum sérstaklega fyrir að minnast á þau lög, þ.e. þau ólög sem eru í gildi gagnvart lögum um fóstureyðingar, kynfræðslu og ýmislegt fleira sem er tekið saman í þeim lagabálki þar sem gert er ráð fyrir að lögráða maður geti neytt ólögráða konu í fóstureyðingu. Þetta er lagabókstafur sem að mér vitandi hefur ekki verið notaður í nokkur ár en er samt sem áður í gildi. Það sama á við hér, þ.e. um þann lagabókstaf sem við erum að ræða um að fella úr gildi í þessari umræðu, um móðgun við erlenda þjóðhöfðingja.

Mig langar kannski að impra á því í lokin að erlendir þjóðhöfðingjar, þ.e. þjóðhöfðingjar yfir höfuð, þetta hefur nú verið rætt dálítið í þessum umræðum um þetta ágæta mál, að fólk sem fer með vald, því öðrum fremur ber að þola ansi óvægna umræðu um sig. Þetta kemur ítrekað fram í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu að fylgi því að vera opinber persóna að þurfa að sæta því að fólk segi ýmislegt miður fallegt um hana af og til.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki sérstakt tilefni til þess að þingmenn og ráðherrar og ráðamenn yfirleitt taki það til sérstakrar skoðunar að hætta að vera svona hörundsárir og passa aðeins betur upp á að það séu ekki lög sem refsi fólki fyrir að vera óánægt með störf þeirra og hvort við, þingheimur, ættum ekki að koma saman í sameiginlegt ferðalag að finna alla þessa dauðu lagabókstafi sem er víðsvegar að finna í íslenskum lögum og reyna að afnema sem flesta til að við fáum sem best tryggt réttaröryggi á Íslandi?