146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:53]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Mér finnst verða að gæta jafnræðis í þessum málum. Fólk sem býr úti á landi þarf að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu og fólk annars staðar, hvernig sem við gerum það, hvort sem það er einhvern veginn hægt að bjóða upp á þessa þjónustu nær fólkinu þar sem það býr eða greiða niður húsnæðiskostnað fyrir fjölskyldur sem þurfa að ferðast langar vegalengdir til þess að eignast börn. Ég veit ekki hvor valkosturinn er betri eða hvað er í raun og veru hægt en eins og hv. þingmaður talaði um áðan munum við aldrei komast að þessum lausnum nema við förum að skoða kerfið heildrænt, förum að móta okkur stefnu og taka skref í átt að henni. Mér finnst best að hugsa þetta þannig: Við finnum markmiðið fyrst, hvert viljum við fara, hvernig við viljum þróa þetta og þá getum við farið að spá í hvaða lausnir eru bestar.