146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:33]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Leiðréttingin er ein farsælasta aðgerð sem ráðist hefur verið í fyrir íslensk heimili. Og er sannkölluð millistéttaraðgerð. Hagrannsóknir benda til þess að skuldastaða heimila hafi marktæk áhrif á dýpt efnahagslægðar og því var nauðsynlegt að ráðast í aðgerðina á sínum tíma.

Virðulegur forseti. Hver var staðan hér árið 2009? Það gleymist nefnilega oft. Skuldir heimilanna voru komnar í 126% af landsframleiðslu og þær voru mjög miklar í alþjóðlegum samanburði. Og hvað gerðu þáverandi stjórnvöld? Jú, þau fóru auðvitað í aðgerðir. Þau fóru í sértækar aðgerðir, líkt og 110%-leiðina, sérstaka skuldaaðlögun, greiðsluaðlögun.

Ég veit að það er stundum svolítið sárt fyrir Vinstri græna að rifja upp 110%-leiðina vegna þess að þeir komu svo sannarlega nálægt henni, en hverjar eru tölurnar? Förum aðeins yfir það. Um 1% heimilanna fékk um helming niðurfærslunnar, eða rúmlega 20 milljarða kr. Þetta 1% heimilanna, eða 775 heimili, fékk um 15 millj. kr. niðurfærslu. Hvernig ætli þetta hafi dreifst á tekjutíundirnar? Við þurfum að skoða það og mun ég sérstaklega óska eftir því. Meðallækkun í leiðréttingunni var 1,2 millj. kr. en um 7 millj. kr. í 110%-leiðinni. Leiðréttingin var almenn aðgerð.

Það er nefnilega þannig að ákveðna efnahagslega sátt vantaði á milli þessara hópa. Þess vegna var ráðist í leiðréttinguna. Þetta var niðurstaða lýðræðislegra kosninga árið 2013.

Virðulegur forseti. Hver er svo útkoman? Hagur heimilanna hefur sjaldan verið betri en nú og skuldir heimilanna ekki lægri í aldarfjórðung. Ég vil líka taka fram að meðallækkun þeirra sem tilheyra lægstu tekjutíundinni nam liðlega 60% af heildartekjum miðað við árið 2013 í leiðréttingunni. En samsvarandi hlutfall fyrir efstu tekjutíundina er 7,6%. Þannig að út frá tekjum kom leiðréttingin hlutfallslega betur út.

Virðulegur forseti. Þetta var réttlætisaðgerð og sáttaaðgerð eftir fjármálahrunið.