146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er þörf á efnislegri umræðu um ákvörðun ráðherra að birta ekki skýrslu um eignir Íslendinga í skattaskjólum og hverjar afleiðingarnar af þeirri ákvörðun eiga að vera. Efni skýrslunnar er sannarlega merkilegt. Eins og fram kemur í áliti umboðsmanns Alþingis varða þær upplýsingar almannahag sem þar koma fram. Tekjutap upp á milljarða króna árlega. Ráðherra hefur líka viðurkennt að það hafi verið mistök að birta ekki skýrsluna fyrir kosningar. Það mál sem við ræðum hér um að ráðherra hafi ekki skilað upplýsingum til almennings er grafalvarlegt.

Í siðareglum ráðherra er skýrt á um það kveðið að ráðherra skuli hafa frumkvæði að því að birta upplýsingar sem varða almannahag. Til þess að taka allan vafa úr umræðunni í þessu máli bið ég ráðherra að svara eftirfarandi spurningum á eins skýran, skilmerkilegan og heiðarlegan hátt og honum ber þegar hann ávarpar þing og þjóð:

1. Hvenær telur ráðherra að skýrslan hafi verið tilbúin til birtingar?

2. Þar sem skýrslan var birt á meðan Alþingi var ekki i starfandi, af hverju var ekki hægt að birta hana fyrir kosningar, jafnvel eftir að þingi var slitið?

3. Varðar efni skýrslunnar almannahag?

4. Braut ráðherra gegn c-lið 6. gr. í siðareglum ráðherra með því að taka ákvörðun um að skýrslan skyldi ekki birt þingi og þjóð um leið og ráðherra fékk kynningu á henni 5. október 2016, heldur þremur mánuðum síðar, eftir kosningar?

5. Með tilliti til aðkomu sinnar að viðskiptum að félagi í skattaskjóli, af hverju var ráðherra ekki vanhæfur til þess að taka ákvörðun um birtingu skýrslunnar?

Virðulegi forseti. Síðan þessi feluleikur með skýrsluna komst upp hefur ítrekað verið tönnlast á því að skýrslunni hafi verið skilað til þingsins. Já, skýrslunni var skilað að lokum eftir að upp komst að ráðherra sat á skýrslunni. Það jafnast á við að skila þýfinu þegar stuldurinn kemst upp. Það afsakar ekki þjófnaðinn. Skaðinn er skeður. Það er búið að kaupa miða og fara í frí til Panama.

Það er líka sífellt endurtekið að nú sé kominn tími til að ræða efni skýrslunnar. Það er alltaf verið að ræða efni skýrslunnar. Það verður haldið áfram að ræða efni skýrslunnar. Það er mjög mikilvægt. Þetta er hins vegar umræða um af hverju upplýsingarnar úr henni skiluðu sér ekki til almennings.

Virðulegi forseti. Það er kominn tími til þess að ráðherra svari fyrir þá ákvörðun sína að birta ekki skýrsluna og ræða hverjar afleiðingar af þeirri ákvörðun eiga að vera. Ég hlakka til að heyra skoðanir þingmanna á því hverjar afleiðingarnar ættu að vera og af hverju. Ég bið þingmenn um að hafa það í huga.

Við hérna inni erum ekki almenningur. Við vinnum í almenningsþágu. Ráðherrar bera þar mesta ábyrgð og eitt af ábyrgðarhlutverkum ráðherra er að miðla upplýsingum — ekki bara að miðla upplýsingum til þingsins, heldur til almennings. En 6. gr. siðareglnanna fjallar einmitt um upplýsingagjöf og samskipti við almenning, ekki við þingið.

Hvað þýðir það þá þegar ráðherra getur bara sleppt því að fara eftir siðareglum sem þingmenn setja sjálfum sér lögum samkvæmt? Er það traustvekjandi? Er það ábyrgt? Er það ekki misbeiting valds þegar ráðherra, sem stundaði viðskipti í gegnum skattaskjól, ákveður að fela skýrslu um viðskipti Íslendinga í gegnum skattaskjól rétt fyrir kosningar sem var flýtt vegna skattaskjólaviðskipta?

Hagsmunaáreksturinn er augljós. Kosningasamhengið er augljóst. Sá sem valdið hafði ákvað þrátt fyrir hagsmunatengsl og þrátt fyrir siðareglur að fela upplýsingar sem kjósendur áttu rétt á. Með því sveik ráðherra kjósendur. Með því að misbeita valdi sínu kom ráðherra í veg fyrir að kjósendur gætu lagt eigið mat fyrir kosningar á þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni. Trúnaðarbrot gerast ekki alvarlegri en þetta.

Virðulegi forseti. Háttvirtir þingmenn. Það er óásættanlegt að ráðherra geri svona, ekki bara umræddur ráðherra heldur allir ráðherrar. Ráðherrar núna. Ráðherrar framtíðarinnar. Þingmenn verða að krefjast agaðri vinnubragða Alþingis vegna og þjóðarinnar vegna.

Þingmenn eru með umboð frá þjóðinni og eru einungis bundnir af eigin sannfæringu. Hvað segir sannfæring eða samviska þingmanna um þessi svik? Afsaka þingmenn verknaðinn af því að það hentar stöðu þeirra persónulega? Telja þingmenn sig vera ábyrgðarlausa með því að gera ekki neitt? Af hverju skilja þeir ekki hversu alvarlegt þetta brot er? Hvað gerist næst þegar einhver ráðherra stingur upplýsingum ofan í skúffu? Á ekkert að gerast? Ef afleiðingarnar eru engar núna af hverju ættu að vera afleiðingar seinna? Ef það verða afleiðingar seinna af svona svikum af hverju þá ekki núna? Geta hv. þingmenn sagt heiðarlega að sama hver eigi í hlut, sama hvenær, eigi afleiðingarnar af svona svikum að vera nákvæmlega engar? Auðvitað ekki.

Því bið ég um þessa sérstöku umræðu þar sem forsætisráðherra getur útskýrt mistök sín, beðist afsökunar og sagt af sér.