146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[15:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja aðeins frá þessari efnislegu umræðu og hyggja að verklagi og siðfræði. Ég hef gert það áður, þetta er í annað sinn í þessum sal. Ég vil segja sem svo hvað skýrsluskil varðar þá á það að vera kýrskýrt að ráðherra, og ekki heldur hv. þingmaður sem talaði á undan, er ekki dómari um það hvað er innihald skýrslu eða hvort það gagnast eitthvað eða hvenær skýrsla skal lögð fram. Það skiptir engu máli hvort plaggið er umbeðið af þingsins hálfu, unnið af sérfræðingum eða að beiðni ráðherra eftir samþykkt eða hvatningu þingsins. Skýrsla er tilbúin þegar hún er tilbúin. Þá á að leggja hana fram hvað sem ráðherra telur vera rétt eða ekki. Þetta er samkvæmt öllum eðlilegum lýðræðisvinnubrögðum. Innihaldið er ekki ákvarðandi í fyrsta sæti, ekki lengdin, ekki hversu sammála ráðherra er innihaldinu eða ósammála. Þetta er einfaldlega ákveðið formsatriði eða verkferli sem við eigum ekki að þurfa að deila um.

Ég lít svo á að ráðherra hafi orðið á mistök við framlagningu skýrslunnar. Enda var um meðvitaða ákvörðun að ræða en ekki gleymsku. Almannahagsmuna var ekki gætt. Það skiptir engu máli hvort einhverjum finnist þetta hafa skipt máli í aðdraganda kosninga eða ekki.

Þá að hinni hlið málsins. Ráðherra minntist síðast á að þingheimur þyrfti að vera sammála um eðli og inntak siðareglna. Það er að sjálfsögðu rétt. Ég var einmitt að reyna að fá afstöðu hans fram vegna algengs misskilnings margra. Ekki var um að ræða umræðu um nein viðurlög heldur sagði ég einfaldlega: Það skiptir engu máli við mat á siðareglubrotum hvort viðkomandi hafi orðið á óvarkárni, gleymska eða hann haft uppi ásetning. Allt slíkt má kalla mistök sem engu breytir um alvarleikann. Brot viðkomandi er brot vegna þess að yfirleitt er ekki hægt að sanna hvað lá að baki rangri ákvörðun sem reglur segja brot. Afsökun breytir engu nema ef til vill einhverjum viðurlögum þegar þau eru metin. Þetta er kjarni máls míns (Forseti hringir.) og varðar miklu ef siðareglur eiga að vera til einhvers gagns. Og eitt er alveg morgunljóst, svo ég endurtaki: Brot á siðareglum eru hvorki háð ásetningi, afsökun, misgáningi né neinu slíku heldur aðeins gjörðinni sjálfri.