146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

130. mál
[15:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvör hans. Bara svo það sé á hreinu var ekki misræmi milli framsöguræðunnar og svartsýnis í spurningunni heldur var ég að vísa í greinargerðina. Þetta er eitthvað sem ég tel að hv. nefnd eigi að skoða.

Við höfum alveg á hreinu að það er bannað að múta á Íslandi. Þetta breytir engu þar um. Spilling er sömuleiðis bönnuð þótt það sé víðfemt hugtak sem menn nota sumir ansi frjálslega. En þetta liggur alveg fyrir og því engin breyting hvað það varðar. Miðað við allar þær mælingar sem ég hef séð hefur verið mjög lítið um það að ræða, ef eitthvað, á Íslandi í samanburði við ýmis önnur lönd.

Við megum heldur ekki blekkja okkur. Ég geri ráð fyrir því ef eitthvert fyrirtæki ætlaði að stunda slíkt myndi það ekki beinlínis setja það í svona skýrslu. Það er þó alveg jafn bannað fyrir og eftir. Það sem við þurfum að hafa í huga þegar við setjum svona reglugerðir — og ég hef aldrei séð reglugerð sem er sett með það að markmiði að koma einhverju slæmu áleiðis, ásetningurinn er alltaf góður — er að ef þær útheimta mikla vinnu, ég tala nú ekki um í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þá gerum við rekstrarumhverfi fyrirtækjanna mjög erfitt.

Nú er það þannig að við öll sem erum hér í vinnu erum á launum hjá skattgreiðendum og verðmætin sem eru sköpuð í þessu þjóðfélagi eru hjá fyrirtækjunum. Við erum í samkeppni við fólk, sérstaklega yngra fólk. Þeir sem eru yngri hafa fleiri tækifæri en við sem erum eldri höfðum á þeirra aldri. Það mun verða mun meira í nánustu framtíð. Við eigum alltaf að hafa í huga að við viljum hafa þannig umhverfi að við verðum með unga fólkið okkar, ef það svo kýs, hér á landi og með lífskjör eins og þau gerast best annars staðar.

Ég hvet hv. nefnd (Forseti hringir.) til að meta alla þessa hluti og fara vel yfir þá. Við komum fram með þessi mál og síðan er það þingsins að fara yfir þau og meta.