146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar líkt og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson að gera hér að umtalsefni sérstakar umræður í gær því að við erum með óvenjulega marga nýja þingmenn á Alþingi að þessu sinni og við höfum öll komið hér að þingstörfum með þau fyrirheit að vilja bæta þingstörf, að bæta umræðuna á Alþingi, dýpka umræðuna, auka traust milli stjórnar og stjórnarandstöðu o.s.frv. Það eru ekki góð skilaboð, forseti, þegar það gerist svo þegar sérstakar umræður um stórpólitísk mál eru haldnar að tveir stjórnarflokkar segi pass.

Ég vil biðja virðulegan forseta að taka það upp á fundi þingflokksformanna. Ég tel fulla ástæðu til, því að það verður ekki góður bragur á þingstörfum ef þetta á að verða plagsiður inn í þetta nýja kjörtímabil. Ég vænti þess að þetta hljóti að verða lagað.