146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Mér fannst ég verða að koma hér upp því að menn voru að tala um fýlubombur. [Hlátur í þingsal.] Ég vil þakka stjórnarandstöðunni fyrir að ná þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins á flug. [Hlátur í þingsal.] Ég hef ekki séð hann á slíku flugi síðan ég byrjaði á þingi.

Ég vildi aðeins ræða þá kvörtun sem komið hefur fram um að dómsmálaráðherra hafi ekki verið undirbúin undir þá spurningu að velskur kennari skyldi hafa verið borinn út úr einhverri flugvél á vegum Icelandair. (Gripið fram í: Einhverri flugvél?) Já, það er væntanlega einhver flugvél. [Hlátur í þingsal.] Að kvarta yfir því að hún hefði ekki verið nógu vel undirbúin. Dómsmálaráðherra veit auðvitað ekki hvað gerist í flugvélum dagsdaglega. Þingmaðurinn hefði alveg eins getað spurt hana hvernig væri með skólakerfið í Wales.

Þetta er mál sem snertir fyrirtæki sem hefur skyldu gagnvart bandarískum stjórnvöldum og hafði ætlað að fljúga þangað. Þetta mál hafði ekkert með íslensk stjórnvöld að gera yfir höfuð.