146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[16:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er alltaf jafn uppbyggilegt að koma úr kjördæmaviku og hitta fjölda fólks og ræða við sveitarstjórnarmenn og þá sem hafa með málin að gera vítt og breitt um landið. Við þingmenn kjördæmisins, Norðvesturkjördæmis, ræddum við fjölda sveitarstjórnarmanna og þar komu fram ýmis áherslumál. Þar kom líka fram að sum þeirra, eiginlega bara flest þeirra, hefði verið hægt að flytja líka fyrir 20 árum, að í mörgum málaflokkum erum við því miður stödd ansi aftarlega á merinni. Menn eru alltaf að tala um sömu hlutina, innviðauppbyggingu og að hafa sömu lífsgæði og hér á höfuðborgarsvæðinu á marga vegu.

Staða margra sveitarfélaga er vissulega í járnum en víða er mikill uppbyggingarhugur og jákvæðir hlutir að gerast í uppbyggingu atvinnulífs og varðandi ýmis mál. Þá þarf ríkisvaldið að koma sterkt þar inn í til að standa með sveitarfélögunum og byggðum landsins með fjárframlögum í uppbyggingu. Það hefur skort algjörlega hjá síðustu ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn gefur ekki mikið undir fótinn með að það eigi eftir að breytast, því miður. Það vantar algjörlega þessa innviðauppbyggingu. Það var ekki talað um brennivín í búðir, að menn hefðu miklar áhyggjur af því að brennivín fengist ekki í búðum. Það er nægt aðgengi að brennivíni á landsbyggðinni, get ég sagt ykkur.

Ég get nefnt hér sem dæmi að stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum hefur sent frá sér ályktun þar sem hún lýsir miklum vonbrigðum yfir hækkunum á raforku. Hér á Alþingi voru samþykkt lög um að jafna húshitunarkostnað eða flutningsgjald á raforku. Það hefur ekki skilað sér betur en þetta, að því miður hefur raforkuverð á landsbyggðinni hækkað mjög mikið. Þetta er bara eitt dæmi um það að landsmenn búa ekki allir við (Forseti hringir.) sömu kjör. Því þurfum við að breyta hér á Alþingi og hífa landsbyggðina upp á sama stað og höfuðborgarsvæðið er í mörgum efnum.


Efnisorð er vísa í ræðuna