146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:32]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir þessa mjög svo mikilvægu og þörfu umræðu um matvælaframleiðslu og matvælaöryggi. Fyrst vil ég nefna að þegar kemur að matvælaframleiðslu almennt er okkur afar mikilvægt að nýta auðlindir okkar sem og aðra framleiðsluþætti með sem hagnýtustum og skilvirkustum hætti. Til þess að svo megi verða verðum við að greina vel framleiðsluþætti okkar og getu til þess að nýta þá. Þar spilar margt inn í; stærð og lega landsins, samspil og samvinna á milli atvinnugreina og samkeppnishæfni, hæfni til að skila ávinningi umfram aðra af starfsemi okkar.

Hafandi sagt þetta þurfum við að taka tillit til þess á sama tíma að hafa hér nægt framboð, fæðuöryggi, og að þau matvæli sem við höfum á boðstólum séu örugg til neyslu. Hv. málshefjandi fór mjög vel yfir mikilvægi matvælaöryggis og er hér með margar knýjandi spurningar til hæstv. ráðherra og vonlaust að koma inn á þær allar í þessari stuttu ræðu.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar og beina spurningu til hennar sem ráðherrann getur vonandi komið að í seinni ræðu sinni. Þessi spurning tengist máli sem við Framsóknarmenn fluttum á síðasta þingi og snýr að mótun opinberrar klasastefnu. Í stjórnarsáttmála er ekki orð um stefnu hæstv. ríkisstjórnar á því sviði utan örkafla um auðlindanýtingu, nýsköpun, rannsóknir og þróun. Í Evrópusambandinu, í Noregi og Danmörku, er þessi hugmyndafræði klasasamvinnu ein af lykilstoðum í stefnumótun og uppbyggingu atvinnugreina, samvinnu og eflingu nýsköpunar, rannsókna og þróunar.