146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

heildstæð stefna í málefnum einstaklinga með heilabilun.

62. mál
[19:28]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvers vegna erum við ekki betur á vegi stödd en þetta? Það er margt sérkennilegt við íslenskt samfélag. Við erum lítil og fámenn. Þetta hefur þótt giska gott. Við höfum verið ansi stofnanasinnuð og áköf í að byggja stofnanir. Það hefur þótt boðleg lausn til þessa. Þessi sjúkdómur er þannig að hann leynist lengi vel og er þess eðlis að menn bera það ekki á torg um leið og þeir finna að það hallar undan fæti andlega. Menn reyna að standa meðan stætt er og læknar veigra sér kannski líka við að ákveða greininguna. Það er hluti af vandanum.

Við erum með rafræna sjúkraskrá í heilbrigðisþjónustu. Það á ekki að vera vandamál að bæta skráninguna. Landlæknir þarf að búa við það að þar er skráningin mjög brotakennd. Við horfum til þess að aukin vitundarvakning skili okkur áleiðis í þessu efni.