146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

aðkoma ráðherra að lausn sjómannaverkfallsins.

[10:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Það lá alveg ljóst fyrir af minni hálfu og það var margítrekað í margra vikna samtölum við sjómannahreyfinguna sem og útgerðarmenn að ég myndi ekki fara þá leið sem hefur verið nefnd sértæk leið, að endurvekja sjómannaafsláttinn með einum eða öðrum hætti. Það lá allan tímann skýrt fyrir. Ég kynnti og lagði fram tillögu sem m.a. fól í sér, eins langt og maður komst, af því að ég var að reyna að tengja við kröfur sjómanna sem voru eðlilegar hér á árum áður, það var eðlilegt, a.m.k. ekki óeðlilegt að menn hefðu sjómannaafslátt á árum áður, en í dag eru viðhorfin önnur. Ég reyndi því að tengja aðrar stéttir inn í slík hlunnindi, fleiri en sjómenn, með ákveðnum takmörkunum þó. Segjast verður eins og er að það var ekki hægt nema með aðkomu útgerðarinnar, það verður líka að draga fram. Eftir stendur að deilan leystist, þannig eigum við að hugsa um þetta. Við eigum frekar að ræða hér, frekar en það sem gerðist í fortíðinni, hvernig við getum byggt upp bæði sjómenn, þessa grjóthörðu stétt sem vinnur í erfiðu umhverfi, og traustið í kringum rekstur útgerðarinnar. Ég tel það vera mikilvægasta hlutverk Alþingis á þessu kjörtímabili, að byggja upp sátt í kringum greinina.