146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:01]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir að vekja máls á þessu stóra viðfangsefni, ferðamálum og uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að vægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar endurspeglist í verkefnum stjórnsýslunnar og langtímastefnumótun.

Ég hef tekið ákvörðun um að frá og með næstu mánaðamótum verði til sérstök skrifstofa ferðamála í ráðuneytinu og hún verði styrkt með mannafla umfram það sem er í dag. Þetta gerum við aðallega með því að forgangsraða innan ráðuneytisins og frá og með næstu mánaðamótum munu fimm starfsmenn helga sig ferðamálum, auk þess sem bætt verður við einum til tveimur stöðugildum þegar líður á árið. Með þeirri breyttu forgangsröðun gefst betra tækifæri til að sinna þeim brýnu verkefnum sem blasa við okkur með það að markmiði að ráðuneytið verði leiðandi í samvinnu við önnur ráðuneyti og stofnanir um hin krefjandi viðfangsefni ferðaþjónustunnar sem varð á skömmum tíma undirstöðuatvinnugrein á Íslandi. Því fylgja verkefni.

Umræðan um ferðaþjónustuna snýst mikið um gjaldtöku. Í fyrsta lagi höfum við gjaldtöku nú þegar, gistináttagjaldið mun þrefaldast frá og með haustinu þegar það fer úr 100 kr. í 300 kr. Auk þess er stefna ríkisstjórnarinnar að búa þannig um hnútana að heimilt verði að leggja á bílastæðagjöld á tilteknum ferðamannastöðum og er unnið að samningu frumvarps um það efni á vegum samgönguráðherra. Þá greiða ferðamenn skatta, eins og við vitum, af virðisaukandi þjónustu og neyslu, svo sem matvælum, auk þess sem umsvif greinarinnar ýta undir hagvöxt og atvinnu. Frekari hugmyndir um sérstaka gjaldtöku á ferðamenn hafa ekki verið ákveðnar. Áform um náttúrupassa sem voru mikið í umræðunni fyrir kosningarnar 2013 náðu ekki fram að ganga og ég mun ekki leggja til þá leið að nýju.

Fyrir þær kosningar ræddu ýmsir kosti komugjalda en minna má á að frumvarp um það efni fór fyrir Alþingi árið 2011 en var þá hafnað í þinginu.

Ég tek undir með málshefjanda að huga þarf að því að sveitarfélögin fái eðlilegan hlut af tekjum vegna ferðamanna til þess að geta staðið undir uppbyggingu á svæðum sínum. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á að þeim er nú þegar veitt umtalsverð hlutdeild úr sameiginlegum sjóðum til uppbyggingar, bæði í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og í gegnum hina nýju landsáætlun um uppbyggingu innviða, sem ég vík betur að síðar. Lagt verður fram frumvarp á næstunni frá samgönguráðherra þar sem heimildir sveitarfélaga til að leggja á bílastæðagjald utan þéttbýlis eru rýmkaðar. Skoða þarf í framhaldinu möguleika sveitarfélaga til að afla sér tekna til að standa undir uppbyggingu.

En gjaldtakan er ekki stærsta viðfangsefnið heldur samhæfð stýring ferðamála, að skerpa skipulag greinarinnar, dreifing ferðamanna um landið allt, náttúruvernd og önnur áhersluatriði sem skilgreind hafa verið í vegvísi í ferðaþjónustu, ítarlegri stefnumörkun með þátttöku allra helstu hagsmunaaðila.

Herra forseti. Þótt umgjörð ferðaþjónustu sem atvinnugreinar heyri undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eru flest stór viðfangsefni sem tengjast málaflokknum á forræði annarra ráðuneyta. Sú staða kallar á samhenta stjórnsýslu og þess vegna var ákveðið að setja á fót Stjórnstöð ferðamála síðla árs 2015. Á vettvangi hennar er unnið þvert á ráðuneyti þar sem ráðherrar ferðamála, fjármála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og umhverfis- og auðlindamála sitja saman við borðið með fulltrúum sveitarfélaga og ferðaþjónustunnar í því skyni að samhæfa stjórnsýslu og aðgerðir í ferðamálum. Þetta er mikilvægur vettvangur sem nýta þarf vel til ársins 2020. Málshefjandi leggur hér áherslu á gjaldtöku, tekjur til sveitarfélaga og dreifingu ferðamanna. Allir þessir þættir kalla til að mynda á samstarf og samhæfingu ráðuneyta, enda ekki á valdsviði ferðamálaráðherra að ráðast í gjaldtöku eða skattheimtu, ákveða vegaframkvæmdir eða snjómokstur, sem eru liðir í að stuðla að dreifingu ferðamanna, svo dæmi sé tekið.

Stefna stjórnvalda er að stuðla að betri dreifingu eða flæði ferðamanna um landið, samanber fyrrnefndan vegvísi. Við þurfum með skipulegri hætti en áður að geta komið á framfæri hvað hver landshluti stendur fyrir sem áfangastaður. Þetta gerum við í vinnu við svokallaða stefnumótandi stjórnunaráætlanir, eða DMP-áætlanir, sem er komin af stað, þar sem mörkun fyrir landshlutana verður m.a. unnin í samráði við heimamenn. Þetta skiptir miklu máli. Flugþróunarsjóður hefur hafið starfsemi. Markmið sjóðsins er að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið með því að styrkja flug, nú til Akureyrar og Egilsstaða, og almennt út á land. Frumvarp um starfsemi sjóðsins er í vinnslu í ráðuneytinu og kemur vonandi til þingsins á þessu þingi.

Þessi ört vaxandi atvinnugrein er í mínum huga öflug byggðaaðgerð, sjálfsprottin og sjálfbær. Landið allt er fallegt og ákjósanlegur viðkomustaður en við verðum að ráða við fjöldann og vöxtinn í fjölguninni. Uppbygging innviða verður að fylgja með. Það er verkefnið, aðeins þannig byggjum við upp sterka ferðaþjónustu til framtíðar, með auknum gæðum og arðsemi í greininni.

Hæstv. forseti. Ég hefði gjarnan viljað nefna fleiri atriði og næ því ef til vill í seinni ræðu minni. Það er mikilvægt að við ræðum saman eins og við erum að gera hér um þær áskoranir og tækifæri sem felast í ferðamálunum. Hér þurfum við öll að vinna saman og ég fagna tækifærinu til að eiga þetta samtal við þingmenn.