146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:09]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega mikilvæg umræða og ég vil taka undir þakkir til hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur fyrir að setja þetta mál á dagskrá í dag. Ráðherra boðar hækkun gistináttagjalds í ræðu sinni og það er vel enda hefur verið kallað eftir því. Það mun, ef mér reiknast rétt til, leiða til þess að hið opinbera mun að öllum líkindum fá inn rúmlega milljarð, sennilega nær 1,5 milljörðum, sem nýtast mun til innviðauppbyggingar á sviði ferðaþjónustu.

Ég vil jafnframt þakka ráðherra fyrir þá skýru framtíðarsýn sem ræða hennar í dag endurspeglar. Hún leggur áherslu á nýjar leiðir í gjaldtöku, á leiðir til að sveitarfélögin geti fengið inn nauðsynlegar tekjur til sín til að standa undir auknu álagi og að síðustu leggur hún áherslu á dreifingu ferðamanna um land allt. Þetta er gleðiefni.

En þetta krefst mannafla og þess vegna vil ég líka fagna því að hæstv. ráðherra hefur boðað hér í dag að sett verði á fót sérstök og vel mönnuð skrifstofa ferðamála í hennar ráðuneyti. Það eru góðar fréttir og endurspegla vel þá áherslu sem ríkisstjórnin leggur á þennan ört vaxandi grundvallaratvinnuveg hér á landi. Þessi áhersla lofar því góðu og er fagnaðarefni fyrir alla hér á landi.

Þá hjó ég eftir því sem ráðherrann minntist á, og hefur verið í umræðunni, um stefnumótandi stjórnunaráætlanir fyrir mismunandi landshluta. Ráðherra talar um samráð við heimamenn, en það væri gaman ef ráðherra gæti komið aðeins inn á það hvernig hún sér það samráð fyrir sér. Þá vil ég (Forseti hringir.) gjarnan spyrja ráðherra nánar út í gjaldtökuna og flugsamgöngur sem lið í að dreifa betur álaginu af ferðamönnum. Ég mun koma betur að því í seinni ræðu minni.