146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:18]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að benda hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur á að það eru fjórar lagadeildir starfræktar í háskólum á Íslandi, ekki bara ein. Það er staðreynd að það hallar mjög á helming íbúa þjóðarinnar, þ.e. þann sem er kvenkyns, að ýmsu leyti, í ýmsu tilliti, ekki bara hvað laun varðar heldur hvað stöðuveitingar varðar, sérstaklega eftir því sem ofar dregur í hin efri lög samfélagsins. Við höfum líka fyrir augum stöðuna eins og hún er í Hæstarétti. Þar er kynjajafnvægið skelfilegt, einn kvenkyns dómari er þar við störf og er, ef ég man rétt, frá vegna veikinda nú um stundir. Við getum gert betur og við skulum gera betur.