146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég ætla hér undir þessum dagskrárlið að ræða störf þingsins. Í 70. gr. þingskapalaga segir að andsvari megi einungis beina að máli ræðumanns. Í andsvörum í þingsal í gær milli hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur og hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur um 106. þingmálið bar svo við að hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir beindi máli sínu að persónu eins flutningsmanna frumvarpsins, hv. þm. Nichole Leigh Mosty, og dró í efa heilindi hennar sem þingmanns og getu til að sinna þeim trúnaðar- og ábyrgðarstörfum sem henni hafa verið falin í þinginu og taldi það dapurlegt og sorglegt að þingmaðurinn væri einn flutningsmanna málsins. Undir þetta tók hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Sá hv. þingmaður og flutningsmaður sem um ræðir sem varð fyrir þessum ósmekklegheitum gat ekki svarað fyrir sig og hafði þegar hér var komið sögu í umræðunni ekki haft tök á að flytja ræðu sína og útskýra sjónarmið sín né koma upp í andsvör annarra ræðumanna.

Frú forseti. Þessi orðaskipti voru ekki boðleg. Hv. þingmenn sem hér áttu hlut að máli héldu því miður ekki í heiðri skynsamlegar og eðlilegar hátternisreglur þingskapalaga.


Efnisorð er vísa í ræðuna