146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[12:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir margt af því sem fram kom hjá honum. Mér sýnist á orðaskiptum okkar og þeirra sem hafa komið upp í þessu máli að sá ágreiningur sem um ræðir kristallist annars vegar í því atriði hvort um sé að ræða minni háttar breytingu eða meiri háttar breytingu og hins vegar í því hvort breyting sé þörf til að ná þessu fram. Ágreiningurinn snýst ekki um það hvert endanlegt markmiðið er. Til að svara spurningunni án útúrsnúninga tel ég að það komi nægilega skýrt fram — fyrst með breytingu á skipan hæfnisnefndarinnar, þeirri breytingu sem gekk í gegn síðastliðið vor, og síðan með vísan í jafnréttislög, sem þegar eru gild — að þetta muni nást. Í annan stað — nú geri ég ráð fyrir spurningu sem kemur þá á móti, getum við ekki gulltryggt það — langar mig að árétta þá skoðun mína að ég tel að slíkt feli í sér þannig breytingar að við gætum ekki klárað þær hratt. Ef til þess kemur, sem ég vona ekki, að talin verði þörf á því að það nái þá yfir kerfið í heild sinni mun það þarfnast töluvert meiri ígrundunar.