146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:30]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að koma í þingið og eiga þessa umræðu við okkur. Ég held að við getum verið alveg sammála um að málefni ungs fólks eru mjög mikilvæg og að þessi málaflokkur sé einn af þeim sem ekki þarf að ríkja neinn flokkspólitískur ágreiningur um. Mig langar því fyrst og fremst að vekja athygli hæstv. ráðherra, sem og annarra, á nokkrum staðreyndum um þennan málaflokk, leita eftir því að hann bregðist við þeim og gefi til kynna hvað hann sér fyrir sér að gera í þeim málum.

Ég lít svo á að samfélagsleg þátttaka ungs fólks sé eitt mest aðkallandi viðfangsefni íslenskra stjórnmála en á sama tíma eitt þeirra mála sem virðist fá hvað minnsta athygli stjórnvalda. Kjörsókn á Íslandi hefur dregist umtalsvert saman undanfarna áratugi eins og víðar á Vesturlöndum og sú þróun hefur verið sérstaklega áberandi meðal ungs fólks. Kjörsókn í síðustu sveitarstjórnarkosningum var sú langminnsta í lýðveldissögunni og það sama gilti um síðustu alþingiskosningar. Kjörsóknin hrapaði til að mynda úr 73,5% 2010 í 66,5% árið 2014.

Kjörsókn ungs fólks hefur alltaf verið aðeins minni en annarra hópa en gögn úr íslensku kosningarannsókninni benda til þess að það bil hafi breikkað verulega undanfarnar kosningar. Samkvæmt gögnum frá Hagstofunni var kjörsókn 20–24 ára kjósenda t.d. 42% árið 2014. Þetta er alþjóðlegt vandamál sem Íslendingar þurfa að taka mjög alvarlega eins og aðrar þjóðir. Kannanir sýna að traust fólks, þá sérstaklega ungs fólks, á stjórnmálum og stjórnvöldum, m.a. þessu háa Alþingi hér, hefur minnkað verulega á þessum tíma og áhugi ungs fólks á þátttöku í lýðræðiskerfinu okkar virðist vera hverfandi. Þetta er vandamál bæði fyrir unga fólkið en ekki síður stjórnmálin, vandamál sem er alvarlegt í dag og verður enn alvarlegra þegar fram líða stundir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað við getum gert til að bregðast við þessari þróun. Hvað hyggst hann gera til að bregðast við? Ég held að við þurfum að gera margt, bæði stjórnmálin og samfélagið almennt. Við þurfum nútímalegri og lýðræðislegri stjórnmál með nýrri stjórnarskrá, gegnsærri og skilvirkari stjórnsýslu, málefnalegri og faglegri umræðu, aukin áhrif almennings á milli kosninga og svona mætti lengi telja. Ég held að slík nútímalegri stjórnmál myndu höfða sérstaklega til ungs fólk en ég held að það sé ekki nóg. Ég held að við þurfum að gera gríðarlegt átak í því að styðja betur við ungt fólk í samfélagslegri þátttöku þess almennt, t.d. þegar kemur að geðheilbrigðismálum, sálfræðiþjónustu og börnum með fjölþættan vanda. En við þurfum líka að styðja betur við sjálfboðastarf og félagsstarf ungmenna. Rannsóknir hafa sýnt að fyrir utan að vera í sjálfu sér mikilvægt veitir það ungu fólki reynslu, kunnáttu og sjálfstraust til hvers kyns þátttöku í samfélaginu.

Öflugt æskulýðs- og félagsstarf er einn af sterkari áhrifaþáttum á kjörsókn og því spyr ég ráðherra hvort hann telji okkur gera nóg í þeim málum. Hvað getum við gert betur til að styðja við slíkt starf? Í því samhengi vil ég vekja athygli ráðherra á því að í gildandi æskulýðslögum er sagt að þau miðist við æskulýðsstarf, með leyfi forseta, „fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára“.

Hvergi í þessum lögum er gerður nokkur greinarmunur á starfi með börnum 6–15 ára annars vegar og félagsstarfi ungmenna á aldrinum 16–25 eða 16–35 ára hins vegar. Með þessu móti eru þessir gerólíku þjóðfélagshópar settir alfarið undir sama hatt. Þetta kann að hljóma eins og lagatæknilegt atriði en það er það alls ekki vegna þess að þessi skilgreining kristallar og grundvallar bæði efni laganna og stefnu stjórnvalda í málaflokknum almennt. Með öðrum orðum, lögin miða fyrst og fremst að starfi með börnum 6–15 ára og svo gott sem allur stuðningur hins opinbera við æskulýðsmál fer til þessa þjóðfélagshóps. Það er auðvitað mjög fjarri mér að gera lítið úr ágæti eða mikilvægi starfs með börnum en það er engu að síður vægast sagt bagalegt og vont að algjörlega sé litið fram hjá félagsstarfi ungs fólks í lögum og stefnumótun hins opinbera í æskulýðsmálum.

Sem dæmi um þetta er Landssamband æskulýðsfélaga, LÆF, regnhlífasamband 32 félagasamtaka ungs fólks á Íslandi og formlegur fulltrúi Íslands í European Youth Forum, regnhlífasambandi evrópskra æskulýðsfélaga. Þrátt fyrir þetta hafa þessi samtök frá upphafi verið úti í kuldanum gagnvart íslenskum stjórnvöldum og þar með þau 32 samtök ungmenna sem heyra undir félagið og berjast í bökkum. Heildarútgjöld ríkisins til æskulýðsmála verða um 240 milljónir á fjárlögum ársins 2017 og hafa verið svipuð undanfarin ár en á þeim tíma hafa LÆF og aðildarfélög þess fengið í kringum 5–10 milljónir af þeim 240 sem hafa verið settar til æskulýðsmála.

Ég tel, virðulegur forseti, að við þurfum að styðja miklu betur við æskulýðsstarf á Íslandi almennt sem og að gæta betur jafnræðis milli ólíkra æskulýðsfélaga og styðja með fullnægjandi hætti bæði við starf með börnum og við félagsstarf ungmenna. Ástandið í þessum málaflokki er sérstaklega óviðunandi þegar við horfum til annarra Norðurlanda þar sem stuðningur stjórnvalda við samtök ungmenna er miklu meiri, markvissari, kerfisbundnari og virtari. Við erum einfaldlega áratugum á eftir þeim. Ég skora á ráðherra að taka málaflokkinn föstum tökum (Forseti hringir.) og eiga virkt samtal og samstarf við æskulýðsfélög í landinu af öllum toga.